Samanburður á Vopnalögum Ísland, Norðurlöndin og ESB

Fyrir Alþingi liggur frumvarp um breytingu á Skotvopnalögum og hefur það frumvarp verið í meðförum Allsherjar og menntamálanefndar. Skotvís, Bogveiðifélag Íslands og Gunnlogi félag byssusafnara komu fyrir nefndina með athugasemdir sem félögin gerðu við frumvarpið. Auk þess hafa félögin unnið að samanburði á vopna-og veiðilöggjöf ESB, Norðurlöndunum og EFTA-ríkjunum gagnvart sambærilegri löggjöf á Íslandi. Sá samanburður leiðir í ljós að vopna-og veiðilöggjöf er mun strangari á Íslandi en í samanburðarlöndum.

Það er því ljóst að Alþingi og Dómsmálaráðuneytið eru að ganga enn harðar fram en Norðurlöndin og ESB og ljóst er að hér er á ferðinni það sem kallað hefur verið gullhúðun í nýlegri skýrslu fyrir Umhverfis og orkumálaráðherra. Íslensk löggjöf er nú þegar strangari og ljóst er að þau verða enn strangari, með auknu skrifræði og íþyngjandi kröfum á almennning.

Athyglisvert er að t.d. Svíþjóð hefur á stefnuskránni að slaka á skrifræðinu, því reynsla þeirra er að það hefur helst bitnað á skotveiði- og skotíþróttafólki, en ekkert dregið úr glæpum sem tengjast skotvopnum.

Glæpamenn eiga það nefnilega til að fara bara ekki eftir lögum. Hjálagt er skjal sem sýnir samanburðinn á milli landa, birt hér með fyrirvara um breytingar.